15.12.2006 | 23:58
Jólin koma........
.......mega samt ekki koma alveg strax. Ég fór nefnilega að asnast til að laga til í saumaherberginu hjá mér og nú er stofan full af drasli sem komu út úr skápunum í saumaherberginu Við nefnilega hentum út einum skáp og tveimur hillum sem voru orðnar frekar ljótar og leiðinlega fullar af drasli. Keypti í staðinn tvær kommóður og eina stóra hillu til að hafa þarna inni því nú á þetta að vera svo huggulegt. En það verður þannig að það fer heill bílfarmur af rusli úr þessu eina herbergi, þvílíkt magn sem maður getur sankað að sér og svo tími ég varla að henda nokkrum hlut þar sem ég gæti þurft að nota þetta einhvern tíma......er samt að reyna að passa mig þetta er drasl sem búið er að vera þarna steinþegjandi síðan ég flutti hingað.
Á morgun ætlum við að fara til Reykjavíkur, eina svona Laugavegs-jóla-stemmings-ferð. Rölta Laugaveginn í rólegheitum og svo er líka smá spenna því við eigum að ná í brúðarmyndirnar, já albúmið er tilbúið og allar stækkanir sem við ætlum að gefa í jólagjafir og svo jólakortin líka tilbúin, sem er kannski ekki seinna vænna þar sem ekki er nema vika til jóla.
Gísli fékk loksins út úr samræmdu prófunum, sem hann tók um miðjan október, í dag. Ég var nú ekki með miklar væntingar til útkomunar, en hann bara stóð sig vel miðað við allt saman og ég var bara nokkuð ánægð með hann greyið. Var kannski heldur æst yfir þessari "velgengni" því ég spurði hann svo hvort hann væri ekki ánægður og þá sagði hann: "jú, ég er bara næstum farin að gráta yfir þessu!" og var bara hálf klökkur yfir því að sjá að hann getur þetta vel. Hann þarf bara að hafa fyrir því.
Trausti átti eitt snilldar kommentið í gær þegar hann var að hjálpa pabba sínum að setja saman kommóðu. Var eitthvað að burðast með fjalir í bílskúrnum þegar hann segir: "ég vildi að ég væri eins og Jón Páll......, nema bara ekki dauður!!" Ótrúlegt hvað hann getur látið út úr sér.
Svo hérna smá pólitík því það er alltaf nóg að gerast í henni. Nýji meirihlutinn er búinn að birta málefnasamning sinn og það er nú meira froðusnakkið. Hvergi tekið á neinum málum bara yfirborðskennt raus. Þeir voru víst ekki farnir að ræða helstu mál sem steitti á þegar frammarar sprengdu meirihlutann við Sjálfstæðismenn. En það voru skipulagsmál við Austurveg og svo launamál en þeir ætluðu að fara að hækka laun sín um leið og verið var að draga saman í rekstri. Og það voru sko engar smá fjárhæðir. Ég hefði líklega hækkað um helming í launum við að vera formaður leikskólanefndar, nema það hafi bara verið fraukan í framsókn sem átti að hækka, hún var víst formaður aðalnefndarinnar. En með þessum gjörningi þeirra öllum, missti hún þá formennsku. Ég er hætt í leikskólanefnd og var ég flutt upp um eitt skólastig og sit nú í skólanefnd. Fyrsti fundur skólanefndar undir formennsku vinstri grænna er á mánudag og það verður fróðlegt að sitja hann. Bæjarstjórnar- og bæjarráðsfundir hafa verið mjög líflegir og að lesa fundargerðir er frekar torlesið þar sem flokkssystkini mín eru mjög dugleg að bóka og segja sitt álit á hlutunum, sem er bara mjög gott því það verður að veita þessu liði aðhald. Þeim lá nú svo á að koma 3. bæjarstjóranum að hér í Árborg að þeir voru búnir að ráða hana áður en þeir höfðu rænu á að segja forvera hennar upp
En eins og við segjum þá verða næstu vikur og mánuðir fróðlegir hvað þetta samstarf varðar
Jæja best að fara að leggja sig og safna kröftum fyrir morgun daginn, nóg sem við höfum fyrir stafni eins og alltaf......
Kristín alltaf jafn tímalega í jólakortunum
Um bloggið
Daglegt líf
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.