Færsluflokkur: Bloggar

Alltaf nóg

Komið að smá greinargerð. Anna Bára fór í leikskólann í gær og það var bara fínt, var reyndar aðeins að skemmta þeim með orgi en það jafnaði sig.

Ég er búin að vera að kenna Gísla að taka próf. Hann er búinn að vera í samræmdum prófum og hann er ekkert að taka þetta of alvarlega, sem er kannski bara gott þannig séð. En metnaðurinn í mömmunni er meiri en svo að hún reynir að kenna honum helstu trixin. Hann var ekkert of uppveðraður eftir íslenskuna í dag, en það er svo stærðfræði á morgun. Var að reyna að leiðbeina honum og svo var Trausti líka að læra stærðfræði þannig að þeir voru báðir að leita ráða hjá mér og á meðan á því stóð, var Anna Bára í einhverju ægilegu grátkasti að það var allt að verða vitlaust hér í hosiló. En hún eiginlega argaði á okkur alveg á meðan þeir greyin voru að læra.

En vonandi að þetta fari allt vel.

Morgundagurinn hjá mér er frekar þéttur, vinna í fyrramálið, svo er ég að fara rúnt um sveitarfélagið í skoðun á leikskólum hér í sveitarfélaginu. Leikskólanefndin er að fara að heimsækja 7 leikskóla og kynna okkur starf þeirra og húsakynni og hvað betur má fara í þeim efnum. Þegar því er svo lokið vonandi um kl 4, þá er ég að fara í bæinn í kaffiboð með kellum sem hafa haldið hópin síðan á síðustu öld (1998) þegar við áttum allar börn á svipuðum tíma. Vorum saman á mömmumorgnum í kirkjunni á sínum tíma. Á morgun erum við að fara að hittast hjá Díönu sem býr í Hafnarfirði.

Síðan ætlum við familýjan að fara til Kristrúnar frænku í Kópavoginum og vera þar eina nótt og nota laugardaginn í alls kyns útréttingar í höfuðstaðnum. Á laugardagskvöldið er svo heljar geim hjá Ingu og Gvendó þar sem RT-klúbburinn er með árlegt formannspartý. Það er alltaf eitthvað í gangi hjá okkur hér á undirlendinu......

Meira um það síðar.

Kristín


Hlaupabóla

Já, það fór ekki svo að maður slyppi við hlaupabóluna þetta sinnið. Það er búið að vera þannig ástand í leikskólanum hennar Önnu Báru að þau hafa verið 5 af 8 í hennar hóp með hlaupabólu, það var ekki hægt að ætlast til þess að hún myndi sleppa. En annars er þetta mjög væg hlaupabóla, 7 bólur á bakinu og búið. Og hún er búin að vera algjör engill á meðan á þessu stendur, reyndar frekar pirruð í morgun. Þannig að þetta er bara fínt að klára þetta á svona þægilegan máta. Maggi var heima með hana í gær og ég er heima í dag, en ef hún verður ekkert verri þá held ég að það sé bara leikskólinn á morgun.

Ég ætla að reyna að sitja eitthvað yfir lestri í dag ef ég fæ tækifæri til þess. Ég var nefnilega á námskeiði í gær sem snýr að endurskoðun félaga og þar er allt efni á ensku og ég þarf dálítið góðan tíma í að komast í gegnum þetta efni. En þetta er mjög gaman. Heilmikil pappírsvinna og svakalega mikil skriffinska og utanumhald í kringum svona endurskoðun.

Það er heilmikið að gera í pólitíkinni eins og venjulega og sumar vikur hjá manni meira bókaðar en aðrar. En ég væri ekki að þessu nema af því að ég hef óskaplega gaman að þessu stússi, og mikinn áhuga á þessum málum.

Ég var nú að lesa fundagerð bæjarstjórnar Árborgar, og þvílíkt hvernig minnihlutinn hagar sér. Endalausar bókanir þannig að þessi fundagerð er illskiljanleg á allan hátt. Og svo er verið að bera upp erindi þar sem einn bæjarfulltrúi úr röðum D-listans er að fara fram á þriggja mánaða fæðingarorlof. Við afgreiðlsu þess máls þá styður minnihlutinn það ekki heldur situr hjá!!!! Hvað er að, þetta er flokkur sem talar fyrir jafnrétti og jöfnuði???? Hefðu þau samþykkt þetta ef um hefði verið að ræða karlmann frekar en konu??? Þetta lið er endalaust að skjóta sig í fótinn og svo er þetta fólk sem situr þarna í minnihluta fyrir S-ið að bjóða sig fram til þings, ég segi bara Guð forði okkur frá því að þau komist til valda................... Þeir sem vita aldrei í hvorn fótinn þeir eiga að stíga eiga ekkert með að stjórna landi

 

Jæja ég bið ykkur vel að lifa

Kristín


ergelsi

Jæja hvernig þykir ykkur bara, samfylkingin reynir að dreifa athygli frá klúðri sínu varðandi tillögur um skattalækkanir á matvæli og svo klúðrið vegna fjárhagsstöðu borgarinnar með því að draga upp fyrrverandi ráðherra sem er að reyna að koma því að, að sími hans hafi verið hleraður 1993 !!! obbobb, hvað er maðurinn að hugsa, ætlar sér að koma því inn í haus landans að hægri menn hleri síma aumingja vinstri mannannna. Hvað er málið, endalaust verið að reyna að fá samúð þjóðarinnar. Þetta er alveg með ólíkindum hvernig þetta fólk ætlar að reyna að ná völdum með því að beita blekkingum og ná samúðarstigum.

Svo heyrði ég í þessum fyrrverandi utanríkisráðherra í útvarpi í gær og þar bara hló hann einhverjum yfilætis hlátri þegar hann var spurður af hverju hann fór ekki með þetta mál og kærði. Gat engu svarað, svo er hann dregin í sjónvarpið og þar lætur hann móðan mása um hvernig farið hafi verið með hann í valdatíð sinni.

Nú vill hann meina að þetta sé allt til komið frá hægri mönnum, en í gær skildist manni að það hafi verið Bandaríkjamenn sem hleruðu hann vegna þess að hann hafi verið hliðhollur austantjalds ríkjunum, og verið fyrsti háttsetti aðilinn til að viðurkenna þessi riki.

Alveg er þetta með ólikindum þessi málflutningur......

Og svo Ingibjörg Sólrún, nú stendur hún í pontu á Alþingi trekk í trekk til að tala um hvers konar ægileg ákvörðun þetta hafi verið með Kárahnjúkavirkjunina, hafi bara verið kosningaloforð í aðdraganda kosninga. Eitt mikilvægt atriði sem hún gleymir en það er að hún var borgarstjóri á þessum tíma og samþykkti þetta líka. Ásamt því að allir þingmenn nema 9 samþykktu þetta mál, þar með taldir samfylkingarþingmenn. Þetta fólk er endalaust að þvo hendur sínar upp úr eigin skít......Talar bara endalaust i hringi, eftir því hvernig vindurinn blæs í þjóðfélaginu. Getur ekki staðið og fallið með sínum ákvörðunum.

Annars er bara gott af okkur hér, alltaf nóg að gera hjá okkur hér. Við fórum í heimsókn í Rjóðrið á þriðjudaginn með Önnu Báru, höfðum hugsað okkur að reyna að fá fyrir hana vistun núna einhverja helgina til að við gætum þá jafnvel farið með strákana eitthvað erlendis til að sjá fótboltaleik eða eitthvað svoleiðis. En, nei þá eru allar helgar uppbókaðar og vinsælast er að taka þær frá sem von er. Þannig að við komumst ekkert í bili. En hún fer eftir rúma viku og fær að gista eina nótt. Þetta er mjög skrýtin tilhugsun að ætla að fara að skilja hana eftir inn á einhverju heimili og bara tjilla án hennar. En ég held að þetta sé bara gott fyrir okkur öll. Hún hefur gott af því að kynnast þessu, strákarnir hafa líka gott af þessu að fá smá frí frá þessu öllu saman, og svo við, þurfum að kynnast þessu líka að vera án hennar og gefa henni frí frá okkur, en þetta er alltaf frekar erfitt

En annars er þetta bara fínt, búin að hella úr skálum pólitiskrar reiði minnar í bili, á nóg eftir. Er að fara í saumó svo ég get verið slök þar.

kveðjur þar til næst

Kristín

 


Daglegt líf

Jæja þá er lífið að komast í réttar skorður aftur eftir helgina. Maður er sestur við skrifborðið í vinnunni og farin að stemma af bókhald fyrir hina og þessa. Mjög skemmtilegt finnst mér.

Anna Bára fer í leikskólann kl 8 og er til 4 eða 5. Þetta eru langir dagar hjá henni, en hún virðist bara sátt með þetta, fer stundum meira að segja að væla þegar ég kem og sæki hana, eins og hana langi ekki með mér. Þetta finnst mér bara góðs viti. Starfið þarna innan dyra er alveg hreint frábært og nú þegar þær hafa tekið bómullina sem þær höfðu vafið um hana til að byrja með, og farnar að taka á henni eins og þarf, þá er þetta bara á góðri leið. Það má nefnilega passa það að láta hana ekki verða að prinsessu sem ekki þarf að hafa fyrir hlutunum.

Trausti er að reyna að læra á klukku svo hann geti nú fylgst með því sjálfum hvenær hann á að mæta á æfingar, hann er bæði í handbolta og fótbolta og það er frekar þreytandi að vera að svara í símann á korters fresti til að segja honum hvað klukkan er. Hann er algerlega tímavilltur drengurinn og nennir ómöglega að læra á klukku. En nú skal hann. Ég keypti handa honum úr með því skilyrði að hann lærði á það, og nú er bara hja okkur foreldrunum að finna tima til að kenna honum að lesa á hana.

Gísli er alltaf jafn rólegur. Hann er ekkert að æsa sig yfir því að læra heima, fær sér frekar blund en að setjast niður með góða bók eða kíkja í stærðfræði. Mamman er nú ekki alveg að gúddera það þar sem hann á að fara í samræmd próf núna innan skamms. Næst er að taka á þeim málum nú þegar brullaupið er afstaðið. Nú verður að gefa börnunum tíma og sinna þeim svo vel sé.

Við fengum myndirnar frá ljósmyndaranum á mánudaginn og þvílík snilld!!!! Alveg hreint ótrúlega flottar myndir. Nú þurfum við að setjast niður og velja 45 stykki til að fá í albúmi og það verður sko hægara sagt en gert. Fengum 300 myndir hver annarri betri þannig að okkur er mikill vandi á höndum. Helst hefði ég viljað fá þær allar i albúmi........ En þetta eru sko myndir sem maður getur alltaf leitað i og yljað sér við þessa minningu um fallegan dag og maður þarf líka að minna sig á að með réttri meðhöndlun þá getur maður bara orðið nokkuð glæsilegur og það er gott að eiga góðar myndir af því Hlæjandi

En nú býð ég góða nótt og sofið rótt

Kristín, ekki jafn glæsileg og þann 30.


Frú Kristín

Já loksins er maður orðin frú.......... Annars fannst mér þetta frekar skelfileg staðreynd að heyra Magga segja þetta í morgun, svo ég bað hann vinsamlegast að nota þetta ekkiBrosandi.

 Annars var dagurinn í gær alveg yndislegur í alla staði. Ekkert stress bara gaman. Ég fór í greiðslu til Ingu mágkonu kl 13 og þaðan beint í förðun. Helga og Þorbjörg komu með mér þangað svona til að halda mér selskap. Þegar það var svo búið sendi ég Magga að heiman svo hann sæi mig ekki, því það boðar víst ógæfu, og við hættum ekki á neitt slíkt. Svo var bara verið að hafa sig til og tíminn leið allt of hratt, klukkan var bara orðin 5 áður en ég vissi af. Ég var enn að sinna Önnu Báru og ekki farin að klæða mig í kjólinn. En allt hafðist þetta nú. Skemmtilegast við þetta var að þegar Valur bróðir ætlaði í sparigallann þá komst hann að því að hann hafði gleymt buxunum sínum fyrir norðan....... og það er nú ekki hlaupið að því að fá buxur á drenginn. En sem betur fer hafði Maggi keypt sér tvenn jakkaföt fyrir brúðkaupið og það kom sér vel fyrir Val, þó skálmasíddinn hefði mátt vera ögn meiri...........Hlæjandi

Rétt um hálf sex var lagt af stað í kirkjuna á Audi A6, svakalega flottum bíl sem Sigvaldi maður Lilju reddaði okkur. Hann var líka bílstjórinn. Við strákarnir fórum með honum, en Anna Bára fór með Val og Þorbjörgu og hún var sett upp á pall hjá pabba sínum þar sem hún tók á móti okkur með feðgunum. Pabbi leiddi mig svo inn gólfið og þetta bara var yndisleg stund, þó maður sé ekki fyrir mikla athygli þá var þetta bara gaman.

Strákarnir stóðu sig eins og hetjur og fluttu ljóð, Ást eftir Sigurð Norðdal. Kom held ég mörgum á óvart að þeir skyldu láta sig hafa þetta og þá sérstaklega Gísli sem ekki er mikið fyrir að gera eitthvað svona fyrir framan fjölda fólks. En þetta var ofboðslega flott hjá þeim og þeir voru bara ánægðir með sig. Síðan vorum við gift og Eyþór Arnalds söng fyrir okkur lag sem heitir Ljósið ert þú. Mjög flott hjá honum og kann ég honum bestu þakkir fyrir, alveg dásamlegt hjá honum að gera þetta fyrir okkur. Og ekki var undirleikarinn verri, Stefán sem kom inn í þetta svona á síðustu stundu, því við vissum ekki að við þyrftum að fá undirleikara eða organista, við héldum að hann fylgdi bara með prestinum.

En svo var athöfnin búin og við tók ljósmyndun sem fór fram á kirkjutröppunum og við kirkjuna með stór-fjölskyldunni allri, og svo við með börnin. Svo færðum við okku niður á Eyrarbakka þar sem við fórum í fjöruna. Þar vorum við mynduð með sólroða í baksýn. Alveg frábært veður en frekar kalt svona þegar maður var hálf ber. En ég hlakka til að sjá þessar myndir.

Eftir það var svo haldið í Rauða húsið þar sem veislan fór fram. FRÁBÆRT í alla staði, maturinn, fólkið, ræðan hans pabba, myndsýningar bæði frá systrum Magga og mínum systkinum, Elsa yndisleg - söng fyrir okkur, Róbert, Kristrún með kveðju frá Kristínu Eddu og Guðrúnu Önnu ljóð og allur pakkinn frá þeim, Hlín með þarfar ábendingar og bara frábært. Takk, Takk, Takk kærlega fyrir þetta allt saman.

Sigvaldi og Lilja takk fyrir hringapúðann og aksturinn!

Og ekki má gleyma veislustjórunum þeim Gvendó og Val, þeir stóðu sig eins og hetjur, eins og ég vissi.

Þegar gestirnir voru farnir fórum við á Hótel Selfoss, en mamma og pabbi voru með börnin á sinni könnu. Og svo tók við gjafaflóð þegar heim kom í morgun, þvílíkt magn af gjöfum. Alls konar gler og dýrgripir. Gjafabréf hér og þar, dúnsængur og sængurver og alls konar glös, vasar og lampar og hnífapör og bara meiriháttar gjafir. Takk fyrir það þúsund sinnum.

Og nú er þetta búið og við tekur bara rólegheit, eða maður vonar að einhver slökun verði. Annars er alltaf eitthvað sem tínist til. Set inn myndir þegar ég verð búin að hlaða þeim inn í tölvuna, annars á ég lítið af þeim, vona að aðrir hafi verið duglegir við það að mynda og hægt verði að fá myndir hjá öllum sem eiga eitthvað frá þessum dýrðarinnar degi.

 En bara þangað til næst

frú Kristín (agalegt)


Þriðjudagurinn fyrir brúðkaup

Þetta er ótrúlegt hvað þetta líður svakalega hratt. Ég á eftir að vera einn dag í vinnu sem ungfrú, síðan tekur alvaran við og maður orðin kona......loksinsHlæjandi

Gærdagurinn fór í setu á námskeiði hjá KPMG og lítið annað sem gerðist þann daginn. Fór reyndar í Blómaval til að segja Þóru hvað hún mætti eyða í skreytingar. En hún ætlar að sjá um allt sem viðkemur þeim málaflokki. Síðan var bara farið snemma að sofa vegna þess að nóttin áður var andvökunótt Önn Báru, held hreinlega að hún hafi ekkert sofið þá nóttina. En það var nú samt ekki verið að væla og skæla, bara verið að spá í myrkrinu.

Dagurinn í dag var svo meira streð. Vinnan var í minnihluta í dag, fór á fund í stjórn Skólaskrifstofu Suðurlands frá 12-14.  Svo fór ég til Ingu í hárgreiðslu og var þar til 19. Þið getið sko farið að hlakka til að sjá mig Glottandi

Spennan magnast á heimilinu, strákarnir ætla að taka að sér aðð lesa upp ljóð í kirkjunni og það verður gaman að sjá hvernig það verður.

En þangað til næst

guð veri með ykkur

Kristín


GÆS

Jæja, lenti maður nú aldeilis í því.......hélt að ég myndi algerlega sleppa við allt grín þegar maður er nú komin á þennan aldur. En nei ég var tekin í gegn á föstudaginn. Mágkonur mínar sóttu mig og settu mig í bleikan glansgalla, túberuðu á mér hárið og máluðu mig bleika í framan. Sendu mig svo í ríkið að versla freyðivín og kippu af bjór. Þaðan var ég svo send í Nóatún til að kaupa jarðaber og þaðan lá svo leið okkar í Blómaval þar sem ég var látin gera tvær skreytingar og selja. Allt gekk þetta eins og í sögu þar sem hvergi var mikið að gera þannig að ég slapp vel út úr þessu. Það sveið þó sárast að fá nælda í barminn samfylkingarnælu, skil ekki hver af mínum vinum hafi átt hana??? Trausti var líka fljótur að taka hana morgunin eftir og henda henni Brosandi já þetta er vel upp alið hér.....

Eftir að ég var búin að selja skreytinguna mína, þá var farið upp í bíl og brunað austur í Hestheima þar sem farið var í klukkutíma útreiðartúr. Það var sko frábært. Veðrið var líka alveg geggjað örugglega 15 stiga hiti og sól. Þetta var alveg meiriháttar gaman og frábær félagsskapur.

Eftir útreiðartúrin var haldið heim til Gullu þar sem farið var í pottinn og reynt að ná úr sér komandi harðsperrum. En það gekk nú ekki mjög vel hjá mér allavega, er búin að vera að drepast í tvo daga. Eftir pottinn var maður sjænaður, ég fékk að fara úr bleika gallanum, og við fórum niður á Stokkseyri í humarveislu á Fjöruborðinu. Allt var þetta hin besta skemmtun og ég fæ vinkonum mínum seint þakkað það að eyða deginum með mér og gera hann skemmtilega. Og eins og lög gera ráð fyrir var ég leyst út með djörfum gjöfum.

En enn og aftur takk stelpur, þetta var yndislegur dagur með ykkur.

Í gær fórum við fjölskyldan svo til Rvk þar sem ýmislegt þurfti að útrétta. Ég var reyndar ekkert mjög þakklát stelpunum í gær þar sem ég var bara á hálfum hraða um Kringluna sökum mikilla harðsperra í lærum og rassi.........þannig að útréttingarnar tóku helmingi lengri tíma en þær hefðu þurft að gera.

Við sem sagt byrjuðum á því að ég mátaði kjólinn, fórum og náðum í fötin hans Magga, og svo vorum við að kaupa það sem þarf til að börnin verði fín þann 30. Kíktum á Kristrúnu og Óskar áður en við fórum og elduðum mat handa Steinþóri sem lagði til hús og húsbúnað. Eftir þennan dag voru allir alveg sprungnir þannig að rúmið var fyrsti kostur þegar heim var komið um 11 leytið.

Þegar við vorum á leið til Rvk hringir Helga systir og þá er hún á leið suður með Þorbjörgu. Þær ætluðu að prófa það að keyra suður og eyða deginum í Kringlunni og fara svo norður aftur. Þannig að þetta var svona fjölskyldufundur í Kringlunni líka. Gaman að því.

En nú dugir ekki annað en að spýta í lófa því ekki er nema 6 dagar til stefnu og nóg að gera fram að því.

Þangað til næst

Kveðja

Kristín


Halló heimur

Já allt getur nú gerst. Nú hef ég ákveðið að koma mér upp síðu til að tjá mig á. Svalur Hér ætla ég að setja markverða hluti sem gerast í lífi okkar fjölskyldunnar á Birkivöllum. Vonandi munuð þið hafa gaman af og njóta vel.

 Það sem ber hæst þessa dagana er undirbúningur stóra dagsins sem verður 30. sept. Já það er nú komið að því að við ætlum að ganga upp að altarinu eftir 16 ára sambúð. Ótrúlegt en satt..... Annars erum við mjög róleg yfir þessu og ætlum nú ekkert að fara á taugum yfir þessu frekar en öðru sem á daga okkar drífur.

Í dag fór ég í dekur í Myrru, alveg dásamleg stund þar. Erum svo að fara annað kvöld að skoða aðstæður í Rauða húsinu þar sem veislan verður haldin. Þannig að þetta er allt á réttri leið en ýmislegt sem þarf að huga að.

Svo er líka nóg að gera í pólitíkinni, en á morgun er fundur í leikskólanefnd þar sem mörg brýn mál ber á góma. Þetta er allt saman mjög skemmtilegt og gaman að starfa í þessu.

En ætli ég hafi þetta nokkuð lengri færslu svona til að byrja með.

þangað til næst.

Kristín


Fyrsta bloggfærsla

Þessi færsla er búin til af kerfinu þegar notandi er stofnaður. Henni má eyða eða breyta að vild.

« Fyrri síða

Um bloggið

Daglegt líf

Höfundur

Kristín Traustadóttir
Kristín Traustadóttir

Er Dalvíkingur og er stollt af því. Finnst þó gott að búa á Selfossi. Viðskiptafræðingur síðan jól 2005. Er gift Magnúsi Gíslasyni raffræðingi og við eigum þrjú yndisleg börn, Gísla Rúnar 12 ára, Trausta Elvar 8 ára og Önnu Báru 2 ára. Starfa hjá KPMG á Selfossi.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...124_2452
  • ...picture_173
  • girnó
  • mmmm.....
  • Við háborðið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband