13.2.2007 | 10:29
Enn veikindi
Já nú er orðin vika síðan ég skrifaði síðast og hér erum við enn mæðgur, ég lagðist í þessa ógeðis flensu á föstudag og er enn heima með hita og kvef. Öll einhvernveginn undirlögð af hóstastrengjum og særindum allstaðar, þvílíkt ógeð. Anna Bára er enn með leiðinda hósta og ég skil hana vel að hún gráti þegar hún hóstar, því ég tárast þegar ég hósta, þetta er svo sárt. Maggi fór með hana á læknavaktina í gær og það er nú eins og það er ekki að gefa henni neitt of fljótt, vilja fá hana í myndatöku til að kanna lungun. Mér er ekkert farið að lítast á þetta hún borðar mjög lítið og drekkur mjög lítið. Það sem hún borðar gubbar hún upp úr sér með miklu slími og ógeði, þannig að hún er orðin frekar máttlaus litla skinnið - og má hún nú ekki við því
Annars hafa dagarnir farið fyrir lítið, Trausti var heima frá þriðjudegi og þangað til í gær, hundslappur með hita hósta og hálsbólgu. Maggi fékk einhverja mini-flensu lagðist í bælið á laugardag með hausverk og svaf fram að kaffi og var í lagi eftir það..... ég vildi að ég gæti sofið svona lagað úr mér.....
Svo er maður alltaf komin með moral yfir vinnunni, en ég veit að ég væri sko ekki nýtanleg í vinnu eins og ég er búin að vera, bara rolast á milli bæla - svitna við að taka úr þvottavélinni hvað þá annað. Er þó að hugsa um að fara kannski í dag og sækja nýju fartölvuna - sem ég fékk í síðustu viku, í vinnunni- og reyna að gera eitthvert gagn hér heima. það eru ýmis verkefni sem ég get leyst bara svona í rólegheitum. Sé til seinni partinn.
Annars náði ég að afreka það á sunnudagskvöldið að verða mér úti um gistingu í Lloret de mar í sumar. Fékk gistingu á að ég held fínu hóteli nánast við ströndina með stóru og flottu útisvæði. Maður er bara að verða svolítið spenntur fyrir þessu öllu saman - þetta verður alveg svakalega gaman.
Pólitík....
En hvað er að gerast í landinu - allt í einu er samfylking orðin næst stærsti flokkurinn aftur?? Hvað kom yfir fólk?? og svona á einni nóttu?? Ég hef þá trú að þetta verði nú ekki niðurstöðurnar 12. maí þegar fólk hefur áttað sig á flautaþyrilshætti þeirra í s-inu. Svo hef ég heldur enga trú á að Ingibjörg og Steingrímur geti unnið saman eftir kosningar þar sem þau eru oftar en ekki á öndverðum meiði - og er þá skýrasta dæmi þar um kryddsíldin á gamlársdag. Nei ég get alveg séð fyrir mér að Geir og Steingrímur færu saman í stjórn ættu nokkuð góð ár saman - mér finnst að það sé komin tími á að framsókn fái frí - og hverjum dettur í hug að vinna með frjálslyndum samansafn fólks sem ekki er rekandi í öðrum flokkum? Fannst best það sem ég las núna síðast að heimildir væru fyrir því að Jóni Baldvini hefði verið boðið að taka sæti á lista!!!! Vona að þeir séu nú ekki svo örvæntingafullir....
Jæja nóg í bili
Kristín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2007 | 09:07
Góðan dag
Er heima núna með Önnu Báru veika. Hún er með hor og hita, var eins og miðstöðvarofn í nótt greyið, alveg sjóðheit. Maggi var heima með hana í gær og nú er komið að mér. Maður fer alltaf á flug með hvað maður geti nú gert til að nýta daginn, vonar að hún verði bara góð svo maður geti nú til dæmis klárað að taka niður jólaskrautið , já ég á það víst eftir. Hef bara hreinlega ekki tímt að taka allt niður, það verður eitthvað svo tómlegt við það. Nú svo gæti ég sest og saumað, hef ekki sest við saumavélina í að verða 4 ár......já þetta er alveg ótrúlegt, en ég saumaði ekkert á meðan ég var í skólanum og hef bara ekki haft mig af stað í þetta. Svo er gæti ég líka farið í einvherja smá tiltekt, en það er ekki eins skemmtilegt og að sauma.
Við erum að fara til Barcelona 23. júní með mömmu og pabba. Ætlum að vera í tvær vikur. Erum búin að bóka flug en eigum eftir að finna gistingu. Erum að vinna í þeim málum núna. Ætli við verðum ekki bara í Lloret de mar eða Tossa de mar sem eru bæir rétt við Barcelona. Þetta verður örugglega mjög skemmtilegt og ég er orðin mjög spennt fyrir þessu.
Tvær síðustu helgar hafa verið algerlega helgaðar handbolta, og þá ekki bara vegna HM, heldur voru Gísli og Trausti að keppa sitthvora helgina. Bæði skiptin var ræs upp úr kl 6 og mætt til Reykjavíkur um 8 leytið. Þvílíkar tímasetningar á þessum mótum....Gísla gekk svona upp og ofan, hann hefur bætt sig mikið en við foreldrarnir vorum ekki alveg nógu ánægð með það að hann er ásamt tveimur vinum sínum alltaf settur í lið þar sem með honum eru strákar sem eru algerir byrjendur þannig að þeir greyin eru alltaf á byrjunarreit á mótum. Þetta verður til þess að þeir hætta að nenna að mæta á þessi blessuðu mót. Svo er magnað að uppgötva það að maður hefur keppnisskap!!! Já það er eitthvað sem ég taldi mig alltaf vanta þegar ég var sjálf í íþróttum, en nú þegar kemur að mínum eigin börnum þá verður maður svo æstur og spenntur og ég hef svo mikinn metnað fyrir því að þeim gangi vel, að ég verð eiginlega hálf undrandi á þessu áður óþekkta keppnisskapi.
Svo fórum við með Trausta núna um síðustu helgi, og þar er allt annað upp á teningnum. Einar þjálfari Trausta er að ná þvílíkum árangri með þessa peyja í 7. flokki að það er bara flott. Við fylgdumst með A-liði sem alveg valtaði yfir sína mótherja og svo C- liðið þar sem Trausti var að spila og þeir voru svo lang bestir að það var bara hálf leiðinlegt fyrir þá að standa í vörn þar sem hin liðin voru mjög hæg og sein voru bara á byrjunarreit. En þeir stóðu sig vel Selfoss liðin og maður var svo stoltur yfir því hvað vel var talað um Selfoss og hvað það væri vel haldið utan um þessa stráka.
Nú dynja á okkur skoðanakannanir vegna Alþingiskosninga í vor. Og þvílík hamingja að sjá könnun sem kom nú í morgun þar sem samfylking er komin niður fyrir 20%. Þetta fólk er eins og flautaþyrlar í öllum málum, þar sem engin samstaða er varðandi eitt eða neitt, þeirra eina mission er að fella ríkisstjórnina....og hvað svo? fara í samstarf með flokki eins og frjálslyndum sem þeir hafa keppst við að úthúða núna síðustu daga. Það sér það hver maður að þetta fólk er ekki traustsins vert. Segir eitt í dag og eitthvað alllt annað á morgun. Og jafnvel að það líði ekki einu sinni dagurinn á milli u-beygjunnar. Svo er nú líka það að Steingrímur kemur aldrei til með að starfa með frjálslyndum þar sem hann er mjög fylgin sér og hefur gefið það út að hann starfi ekki með flokki sem fer í gegnum kosningar með sömu stefnu og frjálslyndir í innflytjenda málum. Og á meðan minnihlutaflokkarnir hamast hver upp á móti öðrum þá er bara rólegt yfir mínum manni Geir. Hann er nú ekki að láta mikið fyrir sér fara og eru þeir farnir að auglýsa eftir honum í Spaugstofunni, hann hefur ekkert færi gefið á sér nú upp á síðkastið sem lýsir bara styrk Sjálfstæðismanna að fara ekki að láta espa sig út í einhverja orrahríð. Ég tel að það eigi eftir að koma okkur til góða í vor. Það verður mjög fróðlegt að fylgjast með framvindunni hjá samfylkingunni þar sem Ingibjörg er ekki þessi leiðtogi sem átti að standa jafnfætis Davíð, nú þegar hann er farin úr ráðherrastól þá er eins og allur vindur sé út kellunni og hún hafi brunnið út.
Jæja ætli sé ekki best að fara gera eitthvað af mínum hugðarefnum dagsins. En þetta líklega verður eins og svo oft áður mikið á prjónunum en ekkert gert!!
Hafið það sem best
Kristín
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.1.2007 | 20:51
Fyrsta færsla á nýju ári :-s
Jæja þá er komið að því. Gleðilegt ár og takk fyrir þau gömlu.
Loksins gef ég mér smá tíma til að setja niður nokkrar línur. Hef verið á kafi í vinnu og alls konar útréttingum. Er farin að keyra Trausta tvisvar í viku til Reykjavíkur til hnykkjara. Við ákváðum að láta athuga með bakið á honum þar sem ekki er eðlilegt hvernig þetta blessaða barn getur/nennir ekki að beygja sig nema með miklum fortölum. Þannig að hann var mældur allur út hjá Bergi hnykkjara og þar bar kom í ljós að barnið er mjög stíft í skrokknum, hann hafði sjaldan séð annað eins, og við eigum að mæta til hans 12 sinnum og okkur lofað því að við fáum allt annað barn út úr þessu dæmi. Verður mjög spennandi að sjá hvort þetta skilar einhverjum árangri.
Nú, þessa daga hefur verið ansi tómlegt í kotinu og strákarnir eru hálf ómöglegir með það að systir þeirra er í útlegð.....hún fór í Rjóðrið á mánudagsmorguninn og kemur heim á föstudaginn. Þetta er sko mjög skrítið að hafa hana ekki hjá sér og maður verður eitthvað svo tómur. Hef þó haft nóg að gera í vinnunni þar sem við erum að fara um sveitarfélögin að vinna og þá þarf maður ekki að hafa áhyuggjur af því að vera komin heim fyrir kl 5 til að sækja Önnu Báru í leikskólann. Kom til dæmis heim úr vinnu núna kl 20. Var í Vík að vinna með tveimur af skrifstofunni. Mjög skemmtilegt að fara sovna um og kynnast mismunandi menningu og vinnubrögðum á hreppsskrifstofum hér í kjördæminu. En ég hlakka sko mikið til að fá Önnu Báru heim aftur til að knúsa og stjana við.
Valur bróðir kom hingað í gær og gisti í nótt. Mér finnst alltaf jafn gott og gaman að fá fólkið mitt í heimsókn. Ég er að vinna í því að fá ferð í sumar til Barcelona fyrir okkur fjölskylduna og jafnvel mömmu og pabba, það væri sko alger snilld að fara loksins með mömmu og pabba erlendis. Það hefur nú bara aldrei gerst að við höfum farið saman til útlanda. Stefnir allt í að við förum 23. júní til að vera í hálfan mánuð.
Pólitíkin hefur líka tekið smá tíma frá mér upp á síðkastið. Var á kjördæmisþingi á sunnudaginn þar sem listi okkar sjálfstæðismanna var samþykktur. Ég var nú svo sem ekki sátt við hann, hefði ekki viljað hafa Johnsenin inni og alls ekki Kristján Pálsson í heiðussæti. Maður sem hleypur undan merkjum fyrir síðustu kosningar vegna þess að hann fékk ekki alveg það sem hann vildi, varð til þess að við misstum einn mann af þingi, það er nú verið að verðlauna hann með því að hafa hann í heiðussætinu.......skil ekki alveg þessa úthlutun. - Árna Johnsen þarf ekki að ræða neitt frekar - skil ekki afhverju maðurinn var að sækjast eftir þessu því hann getur bókað það að hann fær ekki traust sem þarf til að fá einhver embætti.
Svo er það blessaði meirihlutinn sem hér tók við völdum fyrir jól..........búin að setja sveitarfélagið aftur í sömu kyrrstöðuna í leikskólamálum. Búnir að fresta framkvæmdum í Leirkeldu þar sem átti að fara að byggja nýjan leikskóla. Líta á bráðabirgðalausnir sem hér voru framkvæmdar korteri fyrir kosningar í fyrra sem lausn. Búnir að hækka viðmiðunar aldur aftur upp í 2 ára sem komin var niður í 18 mánaða. Svo lokuðu þeir einni deild á nýja leikskólanum sem þeir ákváðu að byggja og ráku fimm starfsmenn. Sveitarfélög eru mörg í vanda með að manna leikskóla en hér er fólk rekið. - Já það er alltaf byrjað á röngum enda, þetta er gert svo hægt sé að borga þriðja bæjarstjóranum laun.........
Ég er búin að reyna að fá greiddan ferðakostnað fyrir sjúkraþjálfan hennar Önnu Báru hingað austur ásamt einhverju sérfræðigjaldi - heildarkostnaður upp á kannski 10-12 þús. En nei það eru ekki fordæmi fyrir þessu í sveitarfélaginu og því þarf að koma beiðni frá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra um þetta, svo það verði tekið fyrir. Það er ekki eins og fólk sé að leika sér að þessu. - Skrifa þetta líka á þriðja bæjarstjórann og kostnaðinn við hann - annað er látið sitja á hakanum.
Um helgina er svo handboltamót hjá Gísla, verður gaman að sjá það - maður er farin að sakna þess að fara á mót - en það er að hefjast næsta törn því Trausti er svo að keppa um næstu helgi í handbolta líka.
Jæja hætt í bili
Kristín
Bloggar | Breytt 25.1.2007 kl. 20:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.12.2006 | 21:11
Gleðileg jól
Gleðileg jól allir saman og ég vona að þið hafið átt góða daga yfir jólahátíðina.
Það gerðum við svo sannarlega. Hér var sem sagt allt eins og það átti að vera mikið borðað, sofið, lesið, spilað og allt sem maður gerir vanalega á jólunum.
Anna Bára var þó ekki alveg með besta móti, örugglega eitthvað í hálsinum á henni því hún fór alltaf að gráta þegar hún geyspaði greyið, og var líka frekar pirruð á nóttunni. En svo í morgun þegar hún fór í leikskólann eftir jólafrí þá var hún bara hin hressasta, kannski hana hafi bara vantað að komast í leikskólann.
Það var náttúrlega mikill spenningur í strákunum dagana fyrir jól, þó svo að móðir þeirra hafi bara slegið þessu upp í kæruleysi og skellt sér í bústað með nokkrum vinkonum að kveldi 22. des og kom heim 23. des. Ég sem sagt fór með Guðrúnu Erlu sem búsett er í USA, og kom heim nú um hátíðarnar og þurftum við að fagna því að sjálfsögðu ásamt 6 öðrum vinkonum. Þetta var orðin kærkominn hittingur þar sem hún hefur ekki komið heim í 2 ár og þessi hópur hefur ekki komið saman í......thja ég bara man ekki hvað það er langt síðan við hittumst.....
Eina sem átti eftir að redda á Þorláksmessu var jólagjöfin hans Gísla. Við gátum með engu móti ákveðið hvað við ættum að gefa honum, en Trausti hafði mjög sterka skoðun á því þar sem hann vissi að hann fengi kuldaskó frá okkur.....fannst það þá sjálfgefið að Gísli fengi skó líka. En við enduðum svo á því kl 10 á Þorláksmessukvöld að kaupa PSP tölvu handa honum. Okkur finnst alltaf við verða að verðlauna drenginn því hann er alveg ótrúlega duglegur að hjálpa til hér heima. Hann til dæmis skúraði allt hér heima fyrir jólin og var bara alltaf tilbúinn að hjálpa til ef eitthvað var. Við höldum að það séu ekki margir 12 ára strákar sem ganga í öll þau verk sem Gísli tekur að sér. Trausti fékk svo líka bók, tölvleik og geisladisk. Þar með var hann sáttur.
Gísli var orðinn frekar örvæntingafullur hér yfir því að við vorum ekki búin að versla jólagjöfina hans á Þorláksmessu. Sagði við mig: "ég fæ örugglega enga pakka!" ég sagði honum að hann gæti nú treyst því að hann fengi pakka. Þá kom í honum: "mér þætti bara meira gaman ef ég fengi jólagjöf frá ykkur!!!" Greyið var farinn að örvænta að hann fengi yfirleitt nokkuð frá foreldrunum.
Trausti var nú svo slakur hér á aðfangadag svona þegar leið á daginn, að hann bara fór upp og lagði sig þegar við vorum að gera matinn klárann. Gísli átti bara að vekja hann þegar við færum að bera á borð....spennan var nú ekki meiri en það. Þegar við vorum búin að borða þá var gengið frá og við náðum að opna og lesa jólakortin áður en fjörið í pökkunum byrjaði. Það kom ýmislegt upp úr þeim. Við Maggi gáfum óvænt hvort öðru hálsmen, ótrúlega samtaka......svo fékk ég pils frá honum alveg svakalega flott. Anna Bára fékk bara eitthvað hlýtt að vera í. Ullarbol og -buxur, flísbuxur, ullarvettlinga, gæruskinnskó, dúnvesti, ullarvesti. Ótrúlega gott allt saman fyrir svona kaldar hendur og kaldar tær.
Á jóladag var svo jólaboð í Stekkholtinu þar sem við komum öll saman stórfjölskyldan. Byrjað á að fá sér kaffi og svo hangiket í kvöldmat. Alltaf notalegar stundir þessi tími. Svo á annan í jólum komu vinkonur mínar Elsa og Lilja ásamt sínum mökum og börnum. Var svona sameiginleg máltíð og kaffi á eftir. Alltaf gaman að hitta þær stöllur og við ákváðum að gera eitthvað skemmtilegt í tilefni af stórafmæli á árinu 2007.
Þriðja í jólum var svo bara afslappelsi, farið í göngutúr og svo bara slakað á. Við tókum okkur bæði frí frá vinnu og vorum bara í notalegheitum. Það var líka erfitt að koma sér í vinnu í morgun þar sem sólahringurinn verður alltaf eitthvað snúinn svona í fríum. Strákarnir eru algerlega búnir að koma sér í þann pakka að sofna seint og vakna seint. Verður ekki auðvelt að snúa því við aftur.
Mamma og pabbi eru svo á suðurleið á morgun og verður það kærkomið að fá þau í heimsókn. Alltaf gott að fá fólkið sitt til sín. Við ætlum að fagna nýju ári saman en þau hafa aldrei verið hjá okkur á þessum tíma. Bara yndislegt.
Jæja ætli ég láti ekki þessari færslu lokið og segi bara gleðilegt ár og takk fyrir allt gamalt og gott.
Hafið það sem allra best yfir það sem eftir er af hátíðinni
Nýárskveðja, Kristín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.12.2006 | 23:58
Jólin koma........
.......mega samt ekki koma alveg strax. Ég fór nefnilega að asnast til að laga til í saumaherberginu hjá mér og nú er stofan full af drasli sem komu út úr skápunum í saumaherberginu Við nefnilega hentum út einum skáp og tveimur hillum sem voru orðnar frekar ljótar og leiðinlega fullar af drasli. Keypti í staðinn tvær kommóður og eina stóra hillu til að hafa þarna inni því nú á þetta að vera svo huggulegt. En það verður þannig að það fer heill bílfarmur af rusli úr þessu eina herbergi, þvílíkt magn sem maður getur sankað að sér og svo tími ég varla að henda nokkrum hlut þar sem ég gæti þurft að nota þetta einhvern tíma......er samt að reyna að passa mig þetta er drasl sem búið er að vera þarna steinþegjandi síðan ég flutti hingað.
Á morgun ætlum við að fara til Reykjavíkur, eina svona Laugavegs-jóla-stemmings-ferð. Rölta Laugaveginn í rólegheitum og svo er líka smá spenna því við eigum að ná í brúðarmyndirnar, já albúmið er tilbúið og allar stækkanir sem við ætlum að gefa í jólagjafir og svo jólakortin líka tilbúin, sem er kannski ekki seinna vænna þar sem ekki er nema vika til jóla.
Gísli fékk loksins út úr samræmdu prófunum, sem hann tók um miðjan október, í dag. Ég var nú ekki með miklar væntingar til útkomunar, en hann bara stóð sig vel miðað við allt saman og ég var bara nokkuð ánægð með hann greyið. Var kannski heldur æst yfir þessari "velgengni" því ég spurði hann svo hvort hann væri ekki ánægður og þá sagði hann: "jú, ég er bara næstum farin að gráta yfir þessu!" og var bara hálf klökkur yfir því að sjá að hann getur þetta vel. Hann þarf bara að hafa fyrir því.
Trausti átti eitt snilldar kommentið í gær þegar hann var að hjálpa pabba sínum að setja saman kommóðu. Var eitthvað að burðast með fjalir í bílskúrnum þegar hann segir: "ég vildi að ég væri eins og Jón Páll......, nema bara ekki dauður!!" Ótrúlegt hvað hann getur látið út úr sér.
Svo hérna smá pólitík því það er alltaf nóg að gerast í henni. Nýji meirihlutinn er búinn að birta málefnasamning sinn og það er nú meira froðusnakkið. Hvergi tekið á neinum málum bara yfirborðskennt raus. Þeir voru víst ekki farnir að ræða helstu mál sem steitti á þegar frammarar sprengdu meirihlutann við Sjálfstæðismenn. En það voru skipulagsmál við Austurveg og svo launamál en þeir ætluðu að fara að hækka laun sín um leið og verið var að draga saman í rekstri. Og það voru sko engar smá fjárhæðir. Ég hefði líklega hækkað um helming í launum við að vera formaður leikskólanefndar, nema það hafi bara verið fraukan í framsókn sem átti að hækka, hún var víst formaður aðalnefndarinnar. En með þessum gjörningi þeirra öllum, missti hún þá formennsku. Ég er hætt í leikskólanefnd og var ég flutt upp um eitt skólastig og sit nú í skólanefnd. Fyrsti fundur skólanefndar undir formennsku vinstri grænna er á mánudag og það verður fróðlegt að sitja hann. Bæjarstjórnar- og bæjarráðsfundir hafa verið mjög líflegir og að lesa fundargerðir er frekar torlesið þar sem flokkssystkini mín eru mjög dugleg að bóka og segja sitt álit á hlutunum, sem er bara mjög gott því það verður að veita þessu liði aðhald. Þeim lá nú svo á að koma 3. bæjarstjóranum að hér í Árborg að þeir voru búnir að ráða hana áður en þeir höfðu rænu á að segja forvera hennar upp
En eins og við segjum þá verða næstu vikur og mánuðir fróðlegir hvað þetta samstarf varðar
Jæja best að fara að leggja sig og safna kröftum fyrir morgun daginn, nóg sem við höfum fyrir stafni eins og alltaf......
Kristín alltaf jafn tímalega í jólakortunum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.12.2006 | 23:38
Hálsbólga
Hér er búið að vera hálsbólga í gangi í nærri tvær vikur. Gísli byrjaði, ég tók svo við fyrir viku síðan og svo var Trausti komin með þennan skít á þriðjudaginn. Algjört ógeð. Ég var nú orðin svo pirruð á þessu að ég fór til læknis í dag og fékk pensilin þannig að þetta ætti að fara fljótlega úr mér.
Við erum búin að vera svakalega dugleg í dag. Búin að laga til í saumaherberginu - hef verið að kvíða því í marga daga að fara þar inn til að þrífa en svo var þetta bara fljótgert, henti bara helling af drasli. Ætla svo reyndar að gera þetta enn betur með því að fá mér almenninlegar hirslur þarna inn, mjög fljótlega.
Eftir þessa tiltekt þá fórum við að taka á móti jólasveinunum sem koma til að kveikja á jólatréi bæjarins. Alltaf gaman að því, Gísli er samt ekki alveg á því að fara og hitta þessa kalla, vildi heldur vera í Tryggvaskála og eta og drekka heldur en að eiga einhver samskipti við þá rauðklæddu En Trausti er ekki eins illa við þá og var hann strax komin í einhvern eltingaleik við þá til að ná sambandi......
Þegar heim var komið var svo ráðist í bakstur. Hrært í piparkökur sem var svo geymt í ísskápnum, síðan var hrært í lakkrískurlkökur úr nýja Nóa Sírius bæklingnum - svakalega góðar. Svo bakaði ég Jóa Fel jólakökur - keypti tilbúið deig í Hagkaup til að prófa, þær líta bara vel út. Síðan var piparkökudegið flatt út og gerðir kallar og kellingar af Trausta og Gísla. Í millitíðinni var svo eldaður kjúlli á nýju lean mean fat machine.....grilli. Ótrúlega gott og sniðugur gripur.
Trausti er svo alsæll með þennan dag að hann faðmaði mig og þakkaði mér fyrir daginn, það fékk aðeins á mann við það, við höfum lítið gert saman annað en að fara á handbolta og fótboltamót síðustu helgar. En það verður að reyna að breyta því á einhvern hátt þótt íþróttir séu af hinu góða.
Á morgun verður líka góður dagur, allavega fyrir mig. Ég á von á frænkum mínum - Sonju, Gurru og Hófý. Þær ætla að koma austur í kaffi en Sonja er að koma heim frá Noregi til að halda jól með fjölskyldu sinni. Oh það verður svo gaman að fá þær allar, alltaf fjör í kring um þær systur. Verst bara hvað það er sjaldan sem við hittumst.
Nú er hef ég skipt um nefnd í bæjarmálunum. Fór úr leikskólanefnd yfir í skólanefnd. Er að fikra mig upp aldursstigan hægt og rólega. Allt þetta brölt í framsóknarmönnum hefur kostað mikið rót og rask í sveitarfélaginu og að ég tali ekki um fjárhagslegan kostnað. Ég held að þeir hafi ekki með neinu móti gert sér grein fyrir hvurslags havarí þetta varð, og er örugglega ekki búið.
En nú ætla ég að fara leggjast til hvílu,
Góða nótt, Kristín - loksins komin í jólaskap
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.12.2006 | 20:19
Vonbrigði
Já það eru frekar vonlausir tímar framundan..... Nýr bæjarstjóri og nýr meirihluti hefja störf hér í Árborg á morgun. Samsuða úr þremur flokkum sem reyndu að ná saman í vor en gerðu ekki, og maður spyr sig, hvað hefur breyst???
Nýji bæjarstjórinn bauð sig fram til bæjarstjóra síðasta vor en fékk ekki brautargengi til þeirra verka en samt ætlar hún að setjast í þann stól. Hvernig ætlar hún að starfa með lítið sem ekkert fylgi á bak við sig???
Maður skilur ekki alveg hvað er að gerast í þessu blessaða bæjarfélagi en við verðum bara að vera þolinmóð og ef meirihlutinn springur ekki á næstunni þá dansa þeir línudans fram að næstu kosningum og hreinn meirihluti verður að veruleika.
Annars er bara búin að vera hér hálsbólga og einhver skítur í okkur familiunni. Gott að klára það fyrir jól. Gísli er búinn að vera með hálsbólgu í viku, ég aðeins skemur og Trausti og Maggi eru rétt byrjaðir...
Ég fór í bæinn í gær til að versla jólagjafir. Við Inga ákváðum að fara bara einn svona virkan dag og gera eins mikið og hægt er því það er ekki þess virði að fara á laugardögum eða sunnudögum og pirra sig á mannmergðinni allsstaðar. Enda gekk þetta glymrandi og við fundum meira að segja helling á okkur sjálfar.
Ég var svo að koma af síðasta fundi leikskólanefndar sem formaður, það var frekar skrýtið og allir frekar þungir yfir þessu öllu saman. Fólk búið að koma sér inní mál og svo er bara öllu kippt undan okkur og ein verður að hætta þar sem hún er ekki í réttum flokki.........Já framsóknarmenn tapa fólki úr nefndum á þessu brölti sínu og við Sjálfstæðismenn fáum fleiri nefndarmenn í staðinn - ekki slæm skipti að því leyti. Allt í lagi að fækka þeim - þeir fara líka að ná maltprósentunni
Jæja þetta er að verða gott af vonleysisbullinu
Kristín - bara svekkt, jafna mig fljótt - vonandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.11.2006 | 12:33
Langt síðan síðast
Held að það sé komin tími á bloggfærslu hér.....
Sit heima núna með Trausta og Önnu Báru lasin, Trausti er fullur af kvefi og kvartaði um í eyranu í morgun, og Anna Bára er bara með einhverja hitapest. Hún sofnaði ekki fyrr en um 4 leytið í nótt og var sjóðheit og með smá skjálfta svona annað slagið, mjög skrítið og manni stendur ekki alveg á sama. En þegar ég spurði Trausta hvort hann vildi ekki bara vera heima með okkur þá var hann harður á því að fara í skólann. Ég skildi ekki þennan mikla áhuga hjá barninu með það að fara í skólann því maður er að berjast við hann alla morgna að koma honum á fætur og svona. Það var svo fljótt að velta upp úr honum ástæðan. En það er bíóferð í dag með bekknum sem hann mátti ekki missa af. Við sögðum honum að hann gæti farið í bíó hann yrði bara keyrður. Þar með samþykkti hann það.
Það hefur mikið gengið á síðan síðast, ég er búin að leggjast í bælið, en ó bara með hausverk og hita. Byrjaði á því á fimmtudagsmorgunin í síðustu viku að fara í leikfimi kl 6 að morgni dags, það fór nú þannig að ég kom heim skjálfandi og nötrandi, lagðist undir sæng og sofnaði og vaknaði kl 4 síðdegis......enn í leikfimisfötunum ótrúlegt hvað maður getur verið slappur. Anna Bára var heima alveg frá þriðjudegi til föstudags í síðustu viku alltaf gubbandi.
Föstudaginn 10. nóv hélt Gísli upp á afmæli sitt og bauð nokkrum strákum hingað i hamborgara veislu. Það gekk bara vel í þetta skiptið en þetta eru fyrirkvíðanlegir dagar þessar afmælisveislur.
Á laugardeginum var síðan prófkjör hjá okkur sjálfstæðismönnum hér í Suðurkjördæmi. Ég var að udnirbúa afmæli sem átti að vera hér á sunnudaginn fyrir ömmur, afa og frænkur og frændur. Ég fór síðan í talningu kl 4 og hélt að það væri nú bara létt verk og yrði klárað fljótlega upp úr miðnætti. EN NEI, ég kom heim að verða hálf sjö morguninn eftir. Þeta gekk alltof hægt fyrir sig að mínu mati. Úrslitin voru heldur ekki að mínu skapi, ég hefði viljað sjá Kjartan í 2. sæti og Johnsenin enhversstaðar mun neðar. Þó það sé liðin vika síðan þetta var þá er ég ekki alveg búin að sjá ljósið við þennan lista sem fólkið hér í kjördæminu kaus.........En það verður að hafa það. Það er nú strax farið að reka ofan í Johnseninn umæli sem hann viðhafði í sjónvarpinu um að hann hafi gert tæknileg mistök???? Mjög skrýtið að segja svona finnst mér.....En maður verður vonandi búin að jafna sig fyrir vorið - ekki get ég hugsað mér að kjósa eitthvað annað.
Sunnudagurinn fór svo í að baka og setja á tertur því afmælið byrjaði kl 4 og ég rétt náði að koma mér á lappir og klára að gera og græja fyrir afmælið. Þetta reddaðist allt saman og gekk bara mjög vel. Og Gísli var alsæll með þetta allt saman og allar afmælisgjafirnar.
Mánudagurinn var mjög erfiður því ég var hrikalega þreytt eftir þessa massa helgi. Hélt ég myndi sofna í vinnunni en það bjargaðist þar sem verkefnið sem ég var að vinna var krefjandi
Ég ætlaði aldeilis að taka jólaverslun í nefið á morgun en það er alltaf eitthvað sem kemur upp á. Ég fr nú ekki með Önnu Báru ef hún heldur áfram að vera svona eins og hún er í dag. Sefur ekki fyrir stressi eða ég veit ekki hvað þetta er í henni. Pirrast frekar yfir engu, sem er mjög ólíkt henni. Hugmynd mín er nefnilega sú að vera búin snemma í jólastressinu og fara jafnvel helgina fyrir jól með familíuna til Köben og anda að okkur jólunum þar.....Væri svakalega gaman fyrir okkur öll ef þetta væri mögulegt.
Kemur í ljós
Kveðja Kristín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.11.2006 | 10:48
Æla
Jæja hér er nú alltaf eitthvað um að vera og ætla ég að stikla á því helsta hér.
Við vorum varla komin suður þegar pabbi heimsótti okkur hingað, en hann var á einhverjum fundum í Reykjavík og skellti sér austur yfir til að heimsækja fjölskylduna. Alltaf gott og gaman að fá sína nánustu til sín. Nú svo þegar hann var rétt farin þá komu Helga og Brói með börnin tvö, og gestrisnin er svo mikil hér á bæ að við fórum í matarboð þegar þau komu og skildum þau eftir bara í lausu lofti og þau urðu að gjöra svo vel að bjarga sér sjálf........ En þetta var einungis fyrir það að ég hélt að þau kæmu á laugardegi en ekki á föstudegi. En þetta fór allt vel að lokum og það var bara betri matur á sunnudagskvöldið fyrir vikið.
Steinþór Snær var ekki alveg nógu hress þegar hann kom var með hita og alveg ómöglegur, Helga endaði með hann upp á heilsugæslu á laugardeginum en þá var piltur komin með í eyrun enn eina ferðina og fékk þriðja pensilín-skammtinn á rétt rúmum mánuði. Þannig að við Helga gerðum lítið annað en að sitja heima og prjóna og dunda okkur. Og var það bara mjög fínt að eiga eina rólega helgi hér heima í góðum félagsskap. Anna Bára var algjört ljós um helgina og vissi maður varla af henni, var greinilega í mjög góðu formi.
Strákarnir voru að keppa og Maggi fór með Trausta niður í Þorlákshöfn þar sem hann tók þátt í fótboltamóti og Gísli spilaði einn leik hér á vellinum við FH. Þeir stóðu sig bara vel töpuðu reyndar 1-0 en það var bara vel sloppið held ég. Veðrið var líka ekki til að hjálpa úrhellisrigning og ógeðslegt fótboltaveður.
Steinþór og Berglind litu svo við hér á sunnudag en það var mjög stutt stopp, þau voru að koma af djammi á Hótel Selfoss og litu hér við á heimleiðinni.
Nú svo er staðan á heimilinu í dag sú að ég er heima með 3 sjúklinga......jamm frábært eða þannig. Maggi byrjaði í gærkvöldi með upp og niður veiki búinn að vera að í alla nótt. Hann var rekinn í annað herbergi þar sem ég ætlaði ekki að fá þetta og vildi ekki fá þessa pest í Önnu Báru. Þegar ég var svo rétt að festa svefn þá byrjar Anna Bára að æla þannig að það mátti skipta um allt á rúminu í kringum miðnættið. Nú það var ekki mikið sofið þar sem ég átti alltaf von á annarri spýju - hún kom svo um 5 leytið....púff þetta er það versta. Nú svo vaknaði Gísli alveg að drepast í maganum og hann byrjaði að æla um það leyti sem Trausti lagði af stað í skólann........Frekar svona geðslegur dagur hér á Birkivöllum.
Svo fékk maður smá sjokk áðan, þá er hringt frá skólanum og Trausti sagður ekki mættur..... "en hann fór héðan um 8 leytið" sagði ég. Þetta var um kl 9. Hún sagðist ætla að tékka betur á þessu og hringdi svo rétt seinna. Þá hafði minn villst á hópum og skellt sér í sund í staðinn fyrir að mæta í tölvutíma........ Ruglaðist aðeins En það var þó ágætt að hann var þó mættur. Maður fer alltaf að ímynda sér að eitthvað hafi komið upp á.
Þá er svona það allra helsta komið á blað, og ég get sagt ykkur að það er nóg framundan, svo hér ætti engum að leiðast. Afmælisboð á föstudaginn í 4 klukkutíma........ púff maður verður að vera vel undirbúinn undir þann dag. Svo er prófkjör hjá sjálfstæðismönnum í kjördæminu á laugardaginn þar sem ég er búinn að bjóða mig fram í vinnu við talningu. Nú svo er handboltamót hjá Trausta í Víkinni á laugardag og kannski sunnudag eftir því hvernig gengur, og kannski leikur hjá Gísla í fótbolta.
Það er alltaf nóg að gera og líður þetta svo hratt hér að það verða komin jól áður en ég næ að kaupa nokkra einustu gjöf er ég hrædd um.......
En ætli ég láti þetta ekki gott heita í bili
kveðja Kristín sjúkraliði
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.10.2006 | 22:27
Norðurferð og fleira
Jæja komin tími á smá færslu hér.
Það hefur verið nóg að gera hjá okkur fjölskyldunni eins og venjan er. Miðvikudagurinn var helgaður nefndar- og stjórnarfundi. Fyrst var fundur í stjórn skólaskrifstofunnar og síðan í leikskólanefnd.
Húsmóðirin fór á prjónanámskeið frekar en ekkert á fimmtudagskvöldið, svona rétt áður en hún skrapp ásamt fjölskyldunni norður.
Það er búið að standa lengi til hjá mér að demba mér á prjónanámskeið í Storkinn og lét nú loksins verða af því. Þetta var bara alveg ótrúlega skemmtilegt og þó maður kunni alveg að prjóna að þá er alltaf hægt að læra eitthvað nýtt. Við börnin lögðum sem sagt af stað norður á fimmtudagskvöldinu í brjáluðu veðri á Hellisheiði þar sem meðalhraðinn var um 30 km á klukkustund. Mín var nú ekki alveg að hafa þolinmæði í þetta, en fólk sem er ekki búið til ferða í veðri eins og var á fimmtudaginn eiga bara að halda sig heima, svona að mínu mati. Við eyddum svo nóttinni hjá Kristrúnu í Kópavoginum, eða öllu heldur Öddu þar sem hún var ein heima. Þangað kom svo pabbi og gisti líka.
Ferðinni var síðan haldið áfram eldsnemma á föstudagsmorguninn og vorum komin upp úr hádegi. Tilgangur ferðarinnar var sá að Gísli var að keppa í handbolta og átti hann að mæta um 4 leytið. Þetta handboltamót gekk nú svona upp og ofan hjá þeim piltum, unnu fyrsta leikin en sáu ekki til sólar eftir það.
Ég fór með mömmu út á Dalvík á laugardaginn, alltaf jafn gott að koma "heim" og hitta fólkið sitt. Heimsóttum það nánasta og fórum svo til Siggu glerlistakonu en hún var að laga til brúðargjöfina sem mamma og pabbi gáfu mér. En það voru forréttadiskar sem pössuðu ekki alveg í sparistellið mitt og var hún að gera nýja fyrir mig.
Á laugardagskvöldið var svo hangikets smakk hjá mömmu og pabba, en pabbi var að testa kjötið sem hann hefur verið að dunda við að reykja nú síðustu vikur. Það sveik ekki frekar en fyrri daginn, og alveg óhætt að fara að hlakka til jólanna hvað það varðar.
Við renndum svo heim á sunnudaginn og gekk ferðinn í heildina mjög vel. Fórum reyndar tvær ferðir á sjúkrahúsið á Akureyri, fyrst með Önnu Báru því hún var með svo mikla sýkingu í andlitinu og eyranu og fékk hún pensilín og krem. Síðan var farið með Gísla þar sem hann var allur útsteyptur í sýkingu í andlitinu bara eins og hann væri með unglingabólur, -greyið.
Svo smá hrakfalla saga af Trausta svona í lokin. Hann var á fótboltaæfingu í dag - þjálfarinn hringdi í Magga og sagði að við yrðum að fylgjast með syni okkar í kvöld þar sem hann fékk höfuðhögg á æfingu. Hann stóð sem sagt í marki og kappið bar hann ofurliði, hann ætlaði sko að verja boltann sem tókst ekki betur til en svo að hann henti sér á markstöngina og hlaut svakalegt horn á ennið. En þjálfarinn var ánægður með hann..........það er fyrir öllu !!!!
En ætli ég láti þetta ekki gott heita í bili, set kannski inn nokkrar myndir svona mér til dundurs.
Kristín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Daglegt líf
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar